Leita í fréttum mbl.is

Okið

Fór á Okið ásamt Sigrúnu og Kötu hitadaginn 30.07 . Skemmtileg og auðveld ganga í ótrulegu veðri.

Jökulinn sem er á Okinu er nú alveg að hverfa. Það er smá sletta eftir norðanmegin í fjallinu. Gígurinn er hálffullur af snjó sem virðist einnig vera að bráðna og lítil á rann úr gígnum sunnan megin. Hún rennur eflaust aðeins seinni part sumars (sjá þessa frétt).

Leiðina mældi ég um 11 km fram og tilbaka og tekur uppganga ekki nema 1 til 2 tíma í rólegu rölti. Alveg hægt að mæla með þessu.

Ef fólk vill síðan meira fjör er upplagt að keyra norður í Skagafjörð og fara rafting. Við gerðum það á laugardaginn. Austari jökulsáin er rosaleg.

leidin

Gígurinn og vatnið

Systur á Oki

 


Núpstaðaskógur-Skaftafell

Ég fór ásamt sjö öðrum í magnaða gönguferð fyrir helgi. Með mér voru Katrín Alma, Fríður, Kristinn, Alma frænka og hjónin Elli og Halla Karen

Ferðin hófst með akstri inní Núpsstaðaskóg, en Alma reddaði strákum sem óku okkur þangað á bílnum mínum og einum öðrum. Það gekk vel en við vorum nokkuð seint á ferð eftir óvæntar tafir í Skaftafelli og vorum þar um kl. 21.

Gengum af stað um kvöldið áleiðis með Núpsánni og fundum gott tjaldstæði eftir ca. 3 tíma. Héldum áfram næsta dag í áttina að Grænalóni. Vorum þar um 17 að mig minnir. Aðeins rúm vika var síðan hlaup kom ún Grænalóni og það var magnað að sjá afleiðingar hlaupsins. Jakar á stærð við íbúðarblokkir strandaðir langt uppí hlíð og sandauðnin. Þetta er í raun ólýsanlegt.  Brestir heyrðust af og til í ísnum og maður þorði ekki að fara of nálægt. Það lak og hrundi stanslaust af jökunum. Óðum síðan ánna sem rennur í lónið. Á kortum er þessi á nafnlaus. Hún var nokkuð erfið yfirferðar enda við seinna á ferð en áætlað var sökum tafa daginn áður. Héldum síðan upp með Grænafjalli og tjölduðum við jökulsporðinn.

Næsti dagur fór í jökulinn. Leiðin okkar var í sveig til að forðast sprungur sem eru við tunguna sem fellur í Grænalón og fara sem best í gegnum ísstrýturnar á jöklinum. Ísstrýtur myndast þegar sandur safnast saman á jöklinum. Sólin nær ekki að bræða ísinn undir sandinum, en bræðir ísinn í kring. Við það myndast þessir hólar og strýtur. Jökulinn var allur sundurskorinn af vatnsrásum og runnu um hann óteljandi lækir og sprænur vatnið kristaltært og svalandi. Leiðin okkar var um 16 km og tók okku 7 til 8 tíma og gekk bara bærilega. Nokkuð var um sprungur rétt áður en komið var af jöklinum við Færinesið. Það er þolinmæðisverk að vinna sig þarna yfir. Það má ekki flýta sér og ekki slóra heldur. Héldum síðan upp brekkuna uppá pallin á eitt stórbrotnasta tjaldstæði sem ég hef tjaldað á. Ekki er mikið um vatn við tjaldstæðið en við fundum góðan læk  innan við stæðið sem rennur úr meðan enn er snjór í Færineseggjum.

Næsta dag var síðan haldið áfram uppá Blátind í frábæru veðri. Útsýnið frá Blátindi var stórkostlegt. Hnjúkurinn, Dyrhamar, Skaftafellsfjöllinn,Þumall, Færineseggjar, Mýrdalsjökull ,Vatnajökull og allt hitt. Loftið vat tært og ekkert mistur. Þetta er ein fegursta tindasýn sem ég hef upplifað á Íslandi. Litlar digitalmyndavélar koma þessu ekki til skila svo mikið er víst. Héldum síðan niður í Skaftafell þar sem fákurinn beið þolinmóður, kældum bjórinn i Virkisánni fengum gistingu í Vesturhúsum og þar með er sagan öll.

Setti inn myndir. Þær stækka ef smellt er á þær 3svar.

Nupst-skaftafell2 sb


Hekla

Fór í gær ásamt Ívari Pálssyni í sumarskíðaferð á Heklu. Veðrið var ansi gott nokkuð skýjað en gott skyggni engu að síður í vestur og norður. Við fórum hefðbundna leið frá bílastæðinu í skjólkvíum og eftir um 2 km labb þá komumst við á skíðin í um 740 m hæð. Leiðin sem við náðum að skíða er um 5 km. og fallhæðin um 740 m ágætt það. Bílastæðið er í ca 520 m hæð þ.a. heildarhækkun er tæpir 1000m. Leiðin er um 14 km löng fram og tilbaka.

Færið var bara nokkuð gott betra neðarlega í fjallinu snjórinn uppi var aðeins mýkri. Þó nokkuð af fólki var á fjallinu og sáust spor eftir stóran hóp sem hefur sennilega verið á göngu á sumarsólstöðum lengsta degi ársins fyrri nótt. Hér er smá fróðleikur um þetta frá Almanaki HÍ:

sólstöður (sólhvörf), sú stund þegar sól kemst lengst frá miðbaug himins til norðurs eða suðurs. Sólstöður eru tvisvar á ári, á tímabilinu 20.-22. júní og 20.-23. desember. Um sumarsólstöður er sólargangurinn lengstur, en um vetrarsólstöður stystur. Breytileiki dagsetninganna stafar fyrst og fremst af hlaupársdögunum sem skotið er inn vegna þess að almanaksárið er ekki jafnlangt árstíðaárinu. Nafnið sólstöður vísar til þess að sólin stendur kyrr, þ.e. hættir að hækka eða lækka á lofti.
Í stjörnufræði eru sólstöður skilgreindar sem það augnablik þegar miðbaugslengd sólar er 90° eða 270°. Lengdin reiknast frá vorpunkti og munar litlu á þessari skilgreiningu og þeirri sem fyrr var gefin.  (heimild: Almanaksskýringar Þorsteins Sæmundssonar)

Þetta var í sem skemmstum orðum frábær skemmtun. Skíðaferð niður Heklu  21. júní í góðu veðri. Er hægt að gera eitthvað betra ?

Hekla track 2


Hengill

Margar áhugaverðar leiðir er hægt að fara í og umhverfis Hengilinn. Ég fór hring í dag sem var ansi góður og góð æfing fyrir aðrar göngur eða hlaup. Ég lagði bílnum við Draugatjörn þar sem rústir gamla sæluhússins eru nánast beint undir háspennulínum sem liggja framhjá Hellisheiðavirkjun. Aðkoman er frá línuveginum.

Það er hægt að skokka fyrstu 7-8 km um Bolavelli og inní Engjadal. Áður en komið er inní Marardal er haldið á fjallið stikaða leið uppá Vörðuskeggja og síðan niður í Innstadal og áfram niður Sleggjubeinaskarð og í bílinn. Hægt er að skokka Innstadalinn í lokin.

Leiðin er um 19 km auk þess sem farið er í um 800m hæð. Úsýnið er frábært á góðum degi. Höfuðborgarsvæðið, Þingvallavatn, Hveragerði og allt hitt. Myndin stækkar ef smellt er á hana þrisvar sinnum.

Hengill stor


Mallorca

Höfnin í Puerto Soller 

Það er hægt að gera annað en liggja í sólbaði á Mallorca. Það reyndum við hjónin vikuna 28 maí til 4 júní þegar við fórum ásamt Ragnheiði dóttur okkar og Kötu og Sigrúnu Dís og fleiri ferðafélögum í gönguferð með Gönguhrólfi til eyjunnar.

Ég ætla ekki að vera með langa ferðlýsingu hér en áhugasamir geta farið inn á heimasíðu Gönguhrólfs og séð skipulag allra ferða sem þar eru í boði.

Skipulag ferðarinnar var gott og fararstjórinn Már jónsson stóð sig með prýði. Ég get hiklaust mælt með þessari ferð. Við gengum um 90 km á sex dögum sáum fjöll og dali, fagrar víkur og tanga.

Hápunktur hvers dags fannst mér eiginlega vera hádegismaturinn útí í fallegri náttúru góðu veðri og í fínum félagsskap. Geitakjötið var eini mínusinn. Ég held að það ætti að leyfa geitunum að lifa áfram þær eru  ekkert sérstakar á diski.

Ég setti inn myndir í albúmin mín hér efst til hægri.

Við hjónin og Ragnheiður ásamt Kötu og Sigrúnu Dís og Hauki (sem kom seinna) vorum síðan eina viku sem hefðbundnir túristar á Muro ströndinni. Heldur hefði ég nú viljað aðra viku í fjöllunum !

Enn svo ég nöldri aðeins þá finnst mér þrengslin í flugvélum vera orðin einum of. Við flugum heim með vél frá Futura og plássið fyrir hvern farþega er fáranlega lítið. Það er ekki mögulegt að sitja í þessum sætum í 4 tíma. Mér finnst þetta komið úti öfgar. Ef það þarf að hækka verð um einhverja þúsundkalla til að auka rými þá verður bara að gera það. Ég mun í framtíðinni forðast þessi síldartunnuflugfélög eins og frekast er unnt.


Botnssúlur

Botnssulur           Fór ásamt Ívari í smá skíðaferð á Botnssúlur 1.05. Frábært veður og frábært skíðafæri sérstaklega neðri hluti fjallsins. Efri hlutinn var harður. Hittum Ella á leiðinni og fórum samferða niður. Við náðum að skíða niður í ca 270 metra hæð.

Þó nokkuð af fólki var á fjallinu enda ekki nema von eins og aðstæður voru þennan dag.

Ívar á góðum degi

Elías Níelsson og SB


Hnjúkurinn vann

Reyndi við Hvannadalshnjúk á sumardaginn fyrsta. Ég var í för með vösku fólki frá SHS og fleirum. Lagt var af stað um miðnætti og áætlað að standa á toppnum um 10.

Það er skemmst frá því að segja að þetta gekk ekki eftir í þetta sinn. Veðrið var ekki gott, hvasst og úrkoma fyrst rigning síðan snjór. Við vorum 8 tímum of snemma á ferð því það lægði mikið þegar leið á daginn. En það getur verið erfitt að breyta áætlun hjá stórum hópi þ.a. þetta fór svona.

Það gengur bara betur næst.

Lagt af stað


Snæfellsjökull

Fór á laugardaginn ásamt Ívari og Baldri á Snæfellsjökul. Við fórum hefðbundna leið frá Jökulhálsi. Skildum bílinn eftir í ca 400 m. hæð og fórum á skíðin. Fórum suðvestan við jökulskerin og beint á Miðþúfu. Við sáum engar sprungur á leiðinni, en það var talsverður hiti og snjórinn bráðnar hratt.

DSC07854

Við hittum slatta af fólki þennan dag enda er jökullinn vinsæll til útivistar. Veðrið var ekki eins gott og við vonuðumst til m.v. veðurspá en gott engu að síður þótt útsýni væri ekki mikið.

Skíðuðum niður sömu leið og snjótroðarinn fer. Það var fínt. Mér sýnist að rennslið niður í bíl hafi verið um 6.5 km og fallhæðin tæpir 1000 m.

Setti inn nokkrar myndir í albúmið. Ívar tók allar myndirnar.

snaefellsjokull_ferill

 


Óþarfi

Skrapp á laugardaginn í smá skíðaferð upp Svínaskarð milli Móskarðahnúka og Skálafells. Það er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi. Það sem stingur í augun eru förin eftir blessuð mótorhjólin. Ég á erfitt með að skilja af hverju ekki er hægt að halda sig á slóðum eða í snjónum. Af hverju þarf að aka yfir ósnortið land og valda óafturkræfum skaða.

Á köflum er eins og að plógur hafi farið yfir landið. Ég hef sjálfur átt torfæruhjól þ.a. ég er ekki að hallmæla hjólunum sem slíkum. En það þarf ótrulega fáa svarta sauði til að eyðileggja fyrir fjöldanum.

Læt eina mynd fylgja sem sýnir um hvað er að ræða.

ör


Eyjafjallajökull

Fór á laugardaginn 5.04 á Hámund hæsta tind Eyjafjallajökuls um 1660 m hár. Fór í þetta sinn með félögum Í ÍSALP upp frá Seljavöllum. Veðrið var stórkostlegt glampandi sól allan tíman en vindur efst. Það er ekki við öðru að búast hjá okkur.

Gekk þokkalega fannst þetta samt nokkuð erfitt, eiginlega erfiðara en Hnjúkurinn fyrir 3 vikum. Átta mig ekki alveg á því.

Á toppnum hitti ég fólk í félaginu toppfarar.is kannaðist við nokkra þar.

Við vorum öll á skíðum þ.a. niðurferðin var fljótleg. Sundlaugin því miður lokuð.

Setti in nokkrar myndir á albúmið hægra megin á síðunni.

 Vegna mikils ruglings sem virðist vera á nafngiftum á jöklinum þ.e. Goðasteinn og Guðnasteinn vil ég benda á grein sem birtist í Lesbók Moggans 25.janúar 1997 eftir Árna Alfreðsson. Eftir þann lestur ætti engin að efast lengur hvað heitir hvað. Greinina má lesa á timarit.is

Á kortinu hér fyrir neðan (Garmin) sést (ef smellt er 3svar) að Goðasteinn er merktur talsvert austan við Hámund. Þetta er ekki rétt og getur verið villandi. Goðasteinn er á vestur hlið öskjunnar í um 3 km fjarlægð en Guðnasteinn er rétt vestan við Hámund.

Leiðin upp og niður


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Stefán Bjarnason
Stefán Bjarnason

Nýjustu myndböndin

Skíðað niður Heklu 21. júní

Skíði á Snæfellsjökli

Skíði á Hvannadalshnjúk

Skíðað/brettað niður Hvannadalshnjúk

Stuð í Berlín maraþoni

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband