12.8.2010 | 21:42
Snæfell Lónsöræfi
Fór síðustu helgi í júlí með Sigrúnu og 7 vinum austur að Snæfelli. Tilgangurinn var að ganga á Snæfell og fara suður í Lón. Ekki allir voru með sama plan þ.a. sumir fóru á Snæfell aðrir í Lón og tveir bæði (Gunni og Stína). Ívar, Gerður og Sigrún sáu síðan um bílana og komu þeim frá Snæfelli og suður í Stafafell. Aksturinn aðra leið er um 250 km.
Skipulagið var þannig að dag 1 var farið frá Snæfelli (Bjálfafelli) að Geldingafelli yfir Eyjabakkajökul. Dag 2 var farið að Egilsseli við Kollumúlavatn og dag 3 að nýju göngubrúnni yfir Jökulsá við Eskifell.
Veðrið var gott dag 1 og 3 en dagurinn frá Geldingafelli var gengin að mestu í rigningu og þoku. Engum mættum við á þessari leið fyrr en við vorum komin langleiðina niður að Eskifelli þá mættum við 4 íslendingum.
Fyrsta dagleiðin liggur yfir Eyjabakkajökul og var hann ágætur yfirferðar við fórum nokkuð ofarlega en færðum okkur neðar þegar við komum yfir til að komast sem best á fast land. Ég las lýsingu á þessari leið þar sem talið var betra að ganga hátt í hlíðum fjallana þegar yfir jökul er komið til að forðast vatnssull. Við gerðum það ekki heldur héldum okkur niðri og ég sé ekki eftir því. Að vísu er yfir sjö ár að fara en þær voru ekki stórar og gróður allur meiri en ofar. Auk þess andaði köldu frá jöklinum en niðri var skjól.
Ívar Gerður og Sigrún höfðu ekið að Geldingafelli þ.a. það var veisla það kvöld í frábærum skála Ferðafélags Fljótsdælinga.
Næsta dag var rok og rigning um morguninn og útlitið ekki gott. Við héldum þó förinni áfram og smám saman lagaðist veðrið en skyggni var ekkert. Það var ekki fyrr en við komum niður af Kollumúlaheiði að það rofaði til. Þá vorum við nánast komin að skálanum og komið logn. Þar gistum við í öðrum frábærum skála í eigu FFF.
Þriðja daginn var farið sem leið liggur niður Leiðartungur og Trollakrókar skoðaðir í leiðinni og komið um hádegi í Múlaskála í Nesi. Þar var engin heima og eftir smá stopp þá héldum við áfram upp Illakamb og fylgdum síðan stikaðri gönguleið að brúnni við Eskifell. Þar voru bílstjórarnir mættir og lá leiðin í Stafafell þar sem við gistum.
Þáttakendur í þessari ferð voru auk mín Sigrún, Ívar, Gerður, Kata,Elli, Halla,Gunni og Stína. Síðasta daginn kom svo Sigga vinkona Gerðar með. Þau sem voru með bílana gengu á móti okkur frá Eskifelli.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2009 | 23:38
Jöklar á undanhaldi
Ég rakst á mynd á síðu Toppfara af Virkisjökli frá því í maí 2009. Þessi mynd er tekin á líkum stað og mynd sem ég tók 1986. Á þessum 23 árum hafa orðið ótrulegar breytingar á jöklinum. Hann hefur minnkað mikið og spurning hvernig hann verður eftir 23 ár ? En sjón er sögu ríkari. Ég stal annarri myndinni af heimasíðu Toppfara ég vona að mér fyrirgefist það.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.12.2009 | 23:32
Esjan frá öllum hliðum
Esjan er nánast ótæmandi uppspretta góðra gönguleiða sem ég hef kannað nokkuð í haust. Ég fer gjarnan í ferðir með gönguhóp sem kalla sig FÍFUR og er sprottinn út frá ÍR Skokki. Þetta haust var þemað Esjan frá öllum hliðum. Ég komst ekki með í allar ferðirnar en nokkrar fór ég í. Þrátt fyrir misjöfn veður féll ferð aldrei niður. Ég læt hér fylgja kort af flestum leiðum en þó vantar ferðina sem farin var inn Blikdalinn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.9.2009 | 23:54
Jósepsdalur
Fór hringferð umhverfis Jósepsdal um helgina ásamt Ívari. Við reyndum að fylgja fjallshryggjunum sem umlykja dalinn. Þetta er nokkuð skemmtileg leið um 12.5 km með útsýni bæði yfir Höfuðborgarsvæðið og einnig til austurs yfir heiðina og til Ölfus. Maður sér vel helstu kennileyti á öllu þessu svæði.
Á leiðinni sáum við einnig ýmist uppistandandi eða í rúst 4 gamla skála sem voru notaðir til skíðaiðkunnar áður fyrr meðal annars einn í eigu Ármenninga og annar sem kallaður var Himnaríki (sjá sögu hans hér). Eina torfæran sem við lentum í var á leiðinni upp Sauðadalahnjúka þar var klettabelti sem ég sá ekki í fljótu bragði hvar fara ætti upp þ.a. við slepptum því. Finn það út seinna.
Lífstíll | Breytt 21.9.2009 kl. 09:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.8.2009 | 20:49
Snæfellsjökull
Fór um mánaðarmótin með dætrum tveim tengdasyni (tilvonandi) og Ívari á Snæfellsjökul. Skýjað var í upphafi en síðan létti til og brast á með brakandi blíðu. Ég var á skíðum og Ragnheiður með bretti en hin voru gangandi. Þetta var frábær skemmtun. Gangan á jökulinn á þessum tíma er stutt aðeins um 1 og hálfur tími og leiðin niður 5 mínútur. Eitthvað er um sprungur umhverfis toppinn en við héldum okkur við förin eftir troðarann þ.a. það var í góðu lagi.
Fært er öllum bílum upp hálsinn á þessum tíma og byrjuðum við þar sem Jöklaferðir eru með bækistöðvar sínar um þessar mundir. Þetta var ekta sumarfæri og fínt að skíða niður. Gaman að geta skíðað í byrjun ágúst með hlýnun jarðar á fullu.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.8.2009 | 22:39
Hlöðufell
Fór á Hlöðufell á laugardaginn með nokkrum félögum í ÍR skokki. Fyrir þá sem ekki vita þá er "Hlöðufell (1188m) formfagur móbergsstapi með jökulsorfnum grágrýtiskolli og sísnævi norðan Laugardals og sunnan Langjökuls. Það er hömrum girt en þó ekki illkleift og útsýnið af toppnum er frábært á góðum degi. Á Hlöðuvöllum, suðvestan Hlöðufells, er sæluhús FÍ frá 1971, sem rúmar 15 manns. Uppgangan á fjallið er greiðust meðfram vestanverðu hamragilinu ofan við sæluhúsið." (nat.is).
Það súldaði aðeins þegar við hófum uppgönguna en létti smá saman til. Þó var útsýni á toppnum ekki mikið. Leiðin upp er auðséð en þó má ekki víkja mikið frá henni til að lenda ekki í vandræðum. Þetta tók mig alls um 3 tíma en geiturnar sem voru með mér voru sumar mun fljótari. Þetta eru nokkuð brattar skriður en ekki neitt sérstaklega erfiðar. Hægt er að aka að uppgönguleiðinni annað hvort upp frá Miðdal við Laugarvatn eða af Skjaldbreiðarvegi sem liggur til austurs af Kaldadal skammt norðan við Litla Brunnavatn.
Eftir uppgöngu héldu nokkrir ferðafélaga minna til uppgöngu á Högnhöfða en ég nennti því ekki enda laugardagur og kvöldið framundan.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.8.2009 | 22:17
Herðubreið
Fór með fjölskyldu og vinum austur helgina fyrir verslunarmannahelgi. Hápunkturinn var ganga á Herðubreið í ekta sumarveðri ! Hitinn á Mývatni var um 2 gráður nóttina áður og inní Herðubreiðarlindum var við frostmark.
Það hamlaði þó ekki för okkar því veður var stillt og útsýni ágætt. Uppgangan á fjallið hófst hjá okkur við bílastæði sem er við enda ökuslóðans sem liggur að fjallinu. Þetta er þokkalegur vegur og ætti að vera fær öllum jeppum. Leiðin er auðséð í upphafi upp brattar skriður. Það sem þarf að varast er grjóthrun aðallega frá samferðarmönnum. Ef einhver er á undan í brattasta kaflanum er nokkuð víst að grjót kemur niður. Það er algjört skilyrði að vera þétt saman upp og niður.
Við vorum um 2 tíma uppá brúnina síðan er um 30 mín gangur uppá toppinn sem er gígbarmur fjallsins. Það var kalt á toppnum þennan ágæta júlídag einhverja gráðu frost en ágætis útsýni. Ferðin niður var að sjálfsögðu mun fljótlegri.
Ég var langelstur í þessum hópi nokkrum áratugum eldri en næsti maður en það er ekkert kynslóðabil á fjöllum þar sitja allir við sama borð.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.8.2009 | 23:32
Þorvaldstindur
Tími kominn til að uppfæra bloggið. Fór á Þorvaldstind laugardaginn 8. ágúst. Brenndi úr bænum á föstudaginn og gekk á fjöllinn á laugardag. Þorvaldstindur er hæsti tindur Dyngjufjalla og er um 1510 m hár en upphafspunktur er annaðhvort 1000m ef byrjað er í Öskju eða um 700m ef byrjað er í Dreka.
Þetta er ansi drjúg ganga. Ég var búin að ákveða að ganga áfram hringinn í kringum Öskjuvatn og þegar upp var staðið varð leiðin um 25km. Ég byrjaði á bílastæðinu við Vikraborgir og endaði þar einnig. Veðrið var ágætt svolítið rok en gott skyggni sem er eins gott í þessu landslagi.
Tindurinn sjálfur er einn af mörgum í Öskjuhringnum og lítill munur er á hæð þeirra margra þótt þessi sé hæstur. Leiðin þræðir nánast allan hrygginn fyrir utan nokkra staði þar sem ég fór aðeins niður í suðurhlíðar. Vikur er allsráðandi í þessum brekkum og eru þær margar mjög lausar í sér.
Árbók FÍ frá 1981 lýsir þessu vel. Þar er talað um að halda megi áfram eftir tindinn niður fjallgarðinn en lofthræddir eru varaðir við. Það eru orð að sönnu. Þverhnípi á báðar hliðar. Ég ákvað að halda ekki áfram hrygginn en fór í staðinn aðeins til baka og niður suðurhlíðina. Þetta lengir leiðina auk þess sem hlíðarnar eru mjög skornar með vatnsrásum en allt er svæðið þakið þykkum vikri. En það var þess virði.
Fyrir utan að fara á tindinn þá fannst mér einna merkilegast að koma að Knebelsvörðu sem var reist árið 1950. Hún stendur við jaðar svokallaðs Mývetningahrauns á rauðri sléttri hraunbreiðu. Ég man ekki eftir að hafa séð svona áður.
Drjúg ganga er frá Knebelsvörðu sem er við vesturhlið vatnsins og að bílastæðinu en hún er nokkuð greiðfær. Það er yfir hraun að fara en vikur frá gosinu 1875 og eflaust seinni gosum hefur fyllt í hraunið. Þó vill það henda að vikurhulann yfir hrauninu brotni. Þetta er eins og að ganga á harðfenni sem stundum gefur sig.
Með öllu stoppi og hangsi tók þetta mig 8 tíma en ég fer ekki sérlega hratt yfir. Eflaust er hægt að vera fljótari ef vilji er til þess. En ef þú vilt eyða degi í þokkalega erfiða göngu með ótrúlegu útsýni þá er þetta ein leið.
Lífstíll | Breytt 12.8.2009 kl. 20:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2008 | 16:56
Grænland
Fór um helgina til Grænlands í veiðitúr með Ella og fleirum. Ferðinni var heitið til Narsaq sem ég heimsótti einnig 1986. Flogið var frá Rvk til Narsarsuaq sem er gamall hervöllur sem var byggður að ég held 1941 af bandaríkjamönnum. Í Narsarsuaq beið okkar báturinn hans Jörgens og síðan var 1 1/2 tíma sigling til Narsaq.
Ég hef komið nokkrum sinnum til Grænlands og alltaf er það jafn skemmtilegt. Maður er í öðru landi en samt er svo margt sem minnir á Ísland. Gróðurinn er líkur, krækiber og bláber mikið af víði en frekar minna um birkikjarr. Veðrið getur einnig verið keimlíkt þótt vindur sé oftast minni.
Við gistum í Narsaq á Guesthouse Niviarsiaq sem er einskonar bændagisting á vegum Hotel Narsaq Group. Já það er líka Group í Narsaq.
Narsaq er 1800 manna bær með fáum bílum og litlu stressi. Þó nokkuð af ferðamönnum var í bænum og mikið um spánverja. Það er vinsælt hjá þeim að sigla kayak innan um ísjakana.
Næstu 3 daga fórum við út með bátum á staði sem Bjarni Olesen ákvað, en hann sá um ferðir okkar á svæðinu. Lítið hafði ringt í sumar þ.a. sumir staðir voru óveiðandi árnar alveg uppþornaðar og vötnin vatnslítil. Það er samt víða gríðarlegt magn af bleikju og bunkast hún upp þar sem einhver straumur og dýpi er.
Við slepptum öllum okkar fiskum nema einum sem við tókum í sushi við árbakkann einn daginn. Mér var eiginlega alveg sama þótt tökur væru stundum dræmari en væntingar voru til. Nátúrann á Grænlandi er mikil og það er eiginlega alveg nóg bara að vera þarna. Þar sem við Elli sátum við eitt vatnið í 20 stiga hita engin fluga, hreindýrstarfur uppi á næstu hæð, tveir hafernir að hringsóla yfir vatninu, nýveiddur silungur ,wasabi, soja og kaldur bjór þá hugsaði ég að þetta yrði nú ekki mikið betra.
Það er alveg hægt að mæla með svona ferð fyrir alla sem vilja upplifa Grænland og sumt af því sem þetta land hefur uppá að bjóða. Landið er gríðarstórt og erfitt yfirferðar þar sem bátar koma mikið við sögu. Á heimleiðinni skoðuðum við síðan Bröttuhlíð og Kirkjuna hans Árna Johnsen, en ég hef áður skoðað Garða eða Igaliku þar sem eru einnig miklar leifar norrænna manna.
Ekkert kort tókst mér að fá í GPS tækið það er hægt að fá sjókort en eitthvað erfiðara um landakort. Það kom ekkert að sök en það hefði verið gaman að trakka veiðisvæðin.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2008 | 12:02
Vaðalfjöll og Reykjanes
Fór um helgina tvær skemmtilegar gönguleiðir vestur á Barðaströnd. Ég fór með Ívari og Gerði vestur að Bjarkarlundi þar sem við hittum Gunna Þórðar Stínu og Einar K. Þau voru með tvær leiðir í huga önnur á Vaðalfjöll hin á Reykjanesið þar rétt hjá.
Auðvelt og fljótlegt er að ganga á Vaðalfjöll þótt þau virðist óárennileg úr fjarska. Hægt er að velja um að keyra eða ganga nálægt efsta tindinum. Ef gengið er hefst gangan á bílstæðinu við Bjarkarlund og er um 7 km upp aflíðandi grónar hlíðar. Annars liggur ágætis slóði upp hlíðina rétt áður en komið er að Bjarkarlundi að sunnan.
Smá klöngur er upp síðasta spölin en uppi er varða og gestabók. Útsýni er nokkuð gott í vestur yfir Berufjörð og Breiðafjörð og síðan Þorskafjörð hinum megin við nesið. Rekjanesið og Barmahlíð sjást vel og Berufjarðarvatn þar sem sagt er að fyrsta fiskeldi á Íslandi hafi verið í fornöld.
Ef fólk er á leið vestur í góðu veðri þá er vel hægt að hvíla sig á akstri smá stund og ganga á þennan tind í leiðinni. Það tekur ekki meiri tíma en svo og er vel þess virði.
Hin gönguleiðin var á Reykjanesinu upp hjá Seljanesi upp á heiðina framhjá Ísavatni og Grundarvatni , þar sem veiðast baneitraðir öfuguggar skv. þjóðsögum, áfram uppá Reykjanesfjall og síðan niður hjá bænum Grund fyrir ofan Reykhóla. Þar féll mikið snjóflóð 18.01.1995 og lést einn maður.
Smá klöngur er niður fjallið hjá Grund og verður að hitta á réttan stað til niðurgöngu. Útsýni frá Reykjanesfjalli er gott yfir Breiðafjörðin og yfir á Snæfelssnesið og sést vel hvílíkur fjöldi eyja er á firðinum. Þessi leið var um 11 km. Það þarf að huga að því að niðurkoma er alllangt frá uppgöngu ef sækja þarf bíla.
Síðan er upplagt að skoða dráttarvélarnar á Grund, fara í sund á Reykhólum og skoða fjöruna og Þörungaverksmiðjuna.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 115014
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar