Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008

Grænland

Fór um helgina til Grænlands í veiðitúr með Ella og fleirum. Ferðinni var heitið til Narsaq sem  ég heimsótti einnig 1986. Flogið var frá Rvk til Narsarsuaq sem er gamall hervöllur sem var byggður að ég held 1941 af bandaríkjamönnum. Í Narsarsuaq beið okkar báturinn hans Jörgens og síðan var 1 1/2 tíma sigling til Narsaq.

Ég hef komið nokkrum sinnum til Grænlands og alltaf er það jafn skemmtilegt. Maður er í öðru landi en samt er svo margt sem minnir á Ísland. Gróðurinn er líkur, krækiber og bláber mikið af víði en frekar minna um birkikjarr. Veðrið getur einnig verið keimlíkt þótt vindur sé oftast minni.

Við gistum í Narsaq á Guesthouse Niviarsiaq sem er einskonar bændagisting á vegum Hotel Narsaq Group. Já það er líka Group í Narsaq.

Narsaq er 1800 manna bær með fáum bílum og litlu stressi. Þó nokkuð af ferðamönnum var í bænum og mikið um spánverja. Það er vinsælt hjá þeim að sigla kayak innan um ísjakana.

Næstu 3 daga fórum við út með bátum á staði sem Bjarni Olesen ákvað, en hann sá um ferðir okkar á svæðinu. Lítið hafði ringt í sumar þ.a. sumir staðir voru óveiðandi árnar alveg uppþornaðar og vötnin vatnslítil. Það er samt víða gríðarlegt magn af bleikju og bunkast hún upp þar sem einhver straumur og dýpi er.

Við slepptum öllum okkar fiskum nema einum sem við tókum í sushi við árbakkann einn daginn. Mér var eiginlega alveg sama þótt tökur væru stundum dræmari en væntingar voru til. Nátúrann á Grænlandi er mikil og það er eiginlega alveg nóg bara að vera þarna. Þar sem við Elli sátum við eitt vatnið í 20 stiga hita engin fluga, hreindýrstarfur uppi á næstu hæð, tveir hafernir að hringsóla yfir vatninu, nýveiddur silungur ,wasabi, soja og kaldur bjór þá hugsaði ég að þetta yrði nú ekki mikið betra.

Það er alveg hægt að mæla með svona ferð fyrir alla sem vilja upplifa Grænland og sumt af því sem þetta land hefur uppá að bjóða. Landið er gríðarstórt og erfitt yfirferðar þar sem bátar koma mikið við sögu. Á heimleiðinni skoðuðum við síðan Bröttuhlíð og Kirkjuna hans Árna Johnsen, en ég hef áður skoðað Garða eða Igaliku þar sem eru einnig miklar leifar norrænna manna.

Ekkert kort tókst mér að fá í GPS tækið það er hægt að fá sjókort en eitthvað erfiðara um landakort. Það kom ekkert að sök en það hefði verið gaman að trakka veiðisvæðin.

Kort Narsaq


Vaðalfjöll og Reykjanes

Fór um helgina tvær skemmtilegar gönguleiðir vestur á Barðaströnd. Ég fór með Ívari og Gerði vestur að Bjarkarlundi þar sem við hittum Gunna Þórðar Stínu og Einar K. Þau voru með tvær leiðir í huga  önnur á Vaðalfjöll hin á Reykjanesið þar rétt hjá.

Auðvelt og fljótlegt er að ganga á Vaðalfjöll þótt þau virðist óárennileg úr fjarska. Hægt er að velja um að keyra eða ganga nálægt efsta tindinum. Ef gengið er hefst gangan á bílstæðinu við Bjarkarlund og er um 7 km upp aflíðandi grónar hlíðar. Annars liggur ágætis slóði upp hlíðina rétt áður en komið er að Bjarkarlundi að sunnan.

Smá klöngur er upp síðasta spölin en uppi er varða og gestabók. Útsýni er nokkuð gott í vestur yfir Berufjörð og Breiðafjörð og síðan Þorskafjörð hinum megin við nesið. Rekjanesið og Barmahlíð sjást vel og Berufjarðarvatn þar sem sagt er að fyrsta fiskeldi á Íslandi hafi verið í fornöld.

Ef fólk er á leið vestur í góðu veðri þá er vel hægt að hvíla sig á akstri smá stund og ganga á þennan tind í leiðinni. Það tekur ekki meiri tíma en svo og er vel þess virði.

vadalfjoll

Hin gönguleiðin var á Reykjanesinu upp hjá Seljanesi upp á heiðina framhjá Ísavatni og Grundarvatni , þar sem veiðast baneitraðir öfuguggar skv. þjóðsögum, áfram uppá Reykjanesfjall og síðan niður hjá bænum Grund fyrir ofan Reykhóla. Þar féll mikið snjóflóð 18.01.1995 og lést einn maður.

Smá klöngur er niður fjallið hjá Grund og verður að hitta á réttan stað til niðurgöngu. Útsýni frá Reykjanesfjalli er gott yfir Breiðafjörðin og yfir á Snæfelssnesið og sést vel hvílíkur fjöldi eyja er á firðinum. Þessi leið var um 11 km. Það þarf að huga að því að niðurkoma er alllangt frá uppgöngu ef sækja þarf bíla.

Síðan er upplagt að skoða dráttarvélarnar á Grund, fara í sund á Reykhólum og skoða fjöruna og Þörungaverksmiðjuna.

Reykholar

 


Okið

Fór á Okið ásamt Sigrúnu og Kötu hitadaginn 30.07 . Skemmtileg og auðveld ganga í ótrulegu veðri.

Jökulinn sem er á Okinu er nú alveg að hverfa. Það er smá sletta eftir norðanmegin í fjallinu. Gígurinn er hálffullur af snjó sem virðist einnig vera að bráðna og lítil á rann úr gígnum sunnan megin. Hún rennur eflaust aðeins seinni part sumars (sjá þessa frétt).

Leiðina mældi ég um 11 km fram og tilbaka og tekur uppganga ekki nema 1 til 2 tíma í rólegu rölti. Alveg hægt að mæla með þessu.

Ef fólk vill síðan meira fjör er upplagt að keyra norður í Skagafjörð og fara rafting. Við gerðum það á laugardaginn. Austari jökulsáin er rosaleg.

leidin

Gígurinn og vatnið

Systur á Oki

 


Höfundur

Stefán Bjarnason
Stefán Bjarnason

Nýjustu myndböndin

Skíðað niður Heklu 21. júní

Skíði á Snæfellsjökli

Skíði á Hvannadalshnjúk

Skíðað/brettað niður Hvannadalshnjúk

Stuð í Berlín maraþoni

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 114430

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband